Saga Eyrarbakka

Á Eyrarbakka liggur sagan og menningin við hvert fótmál. Gamla götumyndin sem tekist hefur að varðveita á Bakkanum er einstæð meðal þéttbýlisstaðanna á Suðurlandi og þó víðar væri leitað.

Eyrarbakki er lítið sjávarþorp á suðurströnd Íslands. Það tilheyrir sveitarfélaginu Árborg og íbúafjöldi þar er um 600 manns. Á Eyrarbakka var mikil verslun og sóttu bændur á Suðurlandi til Eyrarbakka á meðan á einokun danska kóngsins stóð. Eyrarbakki varð einn stærsti bær á Íslandi og var á þeim tíma mun stærri en t.d. Reykjavík og leit lengi út fyrir að Eyrarbakki yrði höfuðborgin.

Eyrar var eitt elsta og kunnasta örnefnið í sögu landsins til forna. Í Íslendingasögum og Sturlungu er sagt, að skip komu út á Eyrum. Nafnið er alltaf ritað í fleirtölu og átti við alla ströndina milli ósa Ölfusár og Þjórsár.

Á Eyrum munu árósarnir hafa verið helstu aðkomustaðir skipa og vart aðrir staðir oftar nefndir. Löngu seinna tekur svo Einarshöfn við. Talið er sennilegt að nafnið Eyrar sé komið af allmiklum eyrum, sem sköguðu frá graslendinu til sjávar, en þessum eyrum munu sjávarflóðin smám saman hafa skolað í burtu, en mörg örnefni eru kennd við þessar eyrar og bera þeim vitni svo sem nöfnin Háeyri og Stokkseyri. Nafnið Eyrar mun hafa verið algengt til 1400.

Eyrarbakki tekur svo við af nafninu Eyrar um og eftir 1400 og nafnið nær einnig yfir strandlengjuna milli stóránna, sem dæmi um það má nefna, að á 16. öld ritar Ögmundur Pálsson, Skálholtsbiskup „Fljótshólar á Eyrarbakka”, einnig ritar Lárus Sveinbjörnsson sýslumaður í Árnessýslu 1868: „Á Eyrarbakkaströndinni milli Ölfusár og Þjórsár”, (Saga Eyrarbakka bls. 2). Um 1900 er þetta farið að breytast, merkingin þrengist og á þá og eftir það aðeins við þorpið sjálft. Eyrarbakki taldist lengi til Stokkseyrarhrepps en 15. mars 1897, er farið fram á skiptingu hreppanna og 18. maí sama ár undirskrifar landshöfðingi formlega skiptingu þeirra, svo þann dag telst Eyrarbakki fyrst sérstakur hreppur og er fyrsti hreppstjórinn Guðmundur Ísleifsson á Stóru-Háeyri.

Eyrarbakkakirkja var vígð í desember 1890, en fram að því áttu Eyrbekkingar kirkjusókn í nágrannaþorpið Stokkseyri. Íbúar á Eyrarbakka voru 702 árið 1890 og var fólksfjölgunin ástæðan fyrir því að Stokkseyrarsókn var skipt í tvennt og ný kirkja reist á Eyrarbakka.

Í byrjun síðustu aldar hófst tímabil útgerðar og fiskvinnslu á Eyrarbakka og störfuðu þar þrjú fiskvinnslufyrirtæki fram undir síðustu aldamót. Hafnleysi stóð útgerð þó alltaf fyrir þrifum og með tilkomu brúar yfir Ölfusárósa lagðist útgerð smám saman af. Eyrarbakki er nú vaxandi ferðamannastaður og gömlu húsin gjarnan nýtt sem sumarbústaðir eða leigð út.